Þessi vefsíða notar fótspor (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn, geyma upplýsingar um stillingar o.fl. Með því að nota vefinn samþykkir þú stefnu okkar um notkun fótspora. ×
Húðmeðferðir

Húðmeðferðir


Á Húðlæknastöðinni er vel tekið á móti öllum sem eru að íhuga húðmeðferðir og í viðtali er farið yfir meðferðarmöguleika, kosti og mögulega galla þeirra, sem og væntingar viðkomandi.

Nánari upplýsingar um húðmeðferðir finnur þú hér að neðan:Húðslípun

Húðslípun með demantsslípunartæki.

Húðslípun er aðferð sem endurnýjar efstu lög húðarinnar án skurðaðgerðar.
Fyrstu húðslípunartækin komu í notkun milli 1950 – 1960. Meðferð með húðslípun hefur verið veitt á Húðlæknastöðinni síðan árið 2000.

Nú er boðið upp á nýja tækni með húðslípun sem kallast demantsslípun.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að demantshúðslípunin fjarlægir efsta lag húðarinnar en það er aðeins brot úr millimetra að þykkt.


Eftir nokkrar meðferðir má búast við að áferð húðarinnar verði sléttari, frísklegri og litadreyfingin verði jafnari.
Þessi meðferð er örugg fyrir allar húðgerðir en mögulegt er að dökkar húðgerðir geti sýnt dekkri bletti eftir meðferð, tímabundið.
Það þurfa flestir nokkrar meðferðir. Meðferðarlotur með fjórum til sex meðferðum eru algengar með tveggja til fjögurra vikna millibili.

Viðkomandi er fljótur að jafna sig eftir meðferðina. Aðalaukaverkunin er roði og bólga sem oftast jafnar sig fljótt, oftast innan 1-2 sólarhringa. Sumir geta upplifað væga bólgu og roða í allt að nokkrar vikur eftir meðferð.

Stundum nota húðlæknar virk krem sem virka gegna öldrun, samhliða slípuninni til að auka áhrif kremanna því þá komast þau dýpra í húðina.

Það sem hægt er að meðhöndla með demantshúðslípun er:

• Fínar línur í andliti verða minna áberandi
• Grynnri ör verða minna áberandi
• Ör eftir unglingabólur verða minna áberandi
• Litablettir í andliti geta orðið minna áberandi
( fer eftir hvernig blettir þetta eru )
• Öldrunarbletti
• Jafnar lit og áferð húðarinnar
• Losa um fílapensla
• Melasma ( meðgöngufreknur )


Áður en ákveðið er að gefa húðslípun er mikilvægt að hitta húðlækni ef:

• Þú ert með húðbreytingu sem gæti mögulega verið húðkrabbamein
• Ef þú tekur Decutan ( Isotretinoin ) sem er sterk bólulyf eða ef minna er en
• 6 – 12 mánuðir frá því að Decutanmeðferð lauk.
• Ef þú færð auðveldalega ör eða ör gróa illa þar með talin keloid ör.


Einnig getur verið varasamt að meðhöndla einstaklinga með ákveðna húðsjúkdóma, amk ef þeir eru virkir. Td.
Rósroða, exem, sólbruna, frunsa ( herpes ), rauða úlfa ( lupus ), opin sár, psoriasis, virkar unglingabólur ( acne ) og mjög viðkvæma húð td þá sem eru með áberandi æðaslit.

Hve lengi áhrifin af meðferðinni endast er mjög einstaklingsbundið. Húðin eldist auðvitað og oftast þarf reglulega viðhaldsmeðferð.Mikilvægt er að nota alltaf sólvörn eftir meðferðina helst alltaf en amk 3 mánuði eftir slípun.
Nokkrar meðferðir getur þurft til að fá fram hámarksárangur.


Ávaxtasýrumeðferð

Um meðferðina

Ávaxtasýrur vinna á efsta húðlaginu, þétta húðina, vinna á fínum línum og
hrukkum, opinni húð, bólum, fílapenslum, og litaflekkjum. Húðin verður sjáanlega yngri, ferskari og stinnari.
Sýrunar fjarlægja dauðar húðfrumur og örva náttúrulega starfsemi og endurnýjun húðarinnar.
Frábær meðferð á haustin og veturna þegar húðin á það til að missa ljómann á dimmum vetrarmánuðum eða sem „boost“ eftir sumarið.

Áhrif meðferðar

Gott er að taka eina meðferð til að örva starfsemi húðarinnar en meðferðin sýnir bestan árángur eftir 4 – 6 meðferðir, fer eftir húðgerð. Árangurinn er jafnara og sléttara yfirbragð, minna áberandi svitaholur, jafnari fituframleiðsla, aukinn raki og hreinni húð.

Fyrir hverja er meðferðin?

Frábær meðferð sem hentar flest öllum húðgerðum, styrkleiki sýru er valin eftir þinni húðgerð.

Hverju má búast við eftir meðhöndlun?

Eftir meðferð getur verið roði í húðinni í nokkra daga. Pirringur og þurrkur getur gert vart við sig og einnig getur húðin byrjað að flagna. Í sumum tilfellum getur orðið nokkur bólga en það fer eftir styrk sýru sem er notuð hverju sinni. Þessi einkenni minnka yfirleitt eftir því sem meðferðarskiptum fjölgar.

Ekki er ráðlagt að nota farða eða gróf kornakrem í nokkra daga á eftir vegna þess hve húðin er opin og viðkvæm. Einnig skal varast skal sól þar sem húðin er ljósnæmari á meðan meðferð stendur.


Dermapen

Dermapen örnálameðferð (Microneedling)-kollagenboost fyrir húðina.
Dermapen er örnálameðferð sem eykur kollagenframleiðslu húðarinnar og bætir þar með fyllingu hennar. Örnálameðferð hefur dýpri virkni en húðslípun og flestar peeling-meðferðir.

Dermapen meðferð er notuð við:
• Húð sem er farin að slappast og eldast
• Hrukkum og fínum línum
• Örum eftir bólur
• Stækkuðum svitaholum
• Upphleyptum örum


Hvernig fer meðferðin fram?

Á Dermapen-anum er einnota nálahaus með 12 örnálum. Þær mynda ca 1300 örsmáa ganga í húðina á sekúndu. Hægt er að stilla hversu djúpt nálarnar fara. Notast er við mismunandi stillingar eftir því hvað verið er að meðhöndla.

Áður en meðferð er hafin er sett hyaluronic gel á húðina. Örgangarnir sem myndast leiða gelið inn í húðina sem eykur á virkni þess. Mestur árangur næst þó vegna þess að með að mynda þennan fjölda af örsmáum göngum/sárum þá fer af stað gróandaferli í húðinni sem leiðir til kollagenframleiðslu sem eykur á fyllingu húðarinnar. Margir sjá árangur eftir fyrstu meðferð en kollagenframleiðsla tekur tíma og kemur endanlegur sjáanlegur árangur fram á nokkrum mánuðum. Til að ná mestum mögulegum árangri er ráðlagt að meðhöndla 4-6 sinnum með ca 4 vikna millibili.

Grunnar meðferðir valda litlum óþægindum en ef til stendur að gera dýpri meðferðir er ráðlagt að borið sé á deyfikrem áður.


Hvað gerist eftir meðferðina?

Ástand húðarinnar heldur áfram að batna næstu 6-12 mánuði eftir eina meðferðarlotu.
Strax eftir meðferð er húðin rauð og örlítið bólgin. Oftast gengur þetta yfir á 1-2 dögum, en fyrir kemur að einhver roði og bólga getur varað í allt að viku.Forðast skal æfingar, sund og gufuböð í 1-2 sólarhringa á eftir. Hægt er að nota snyrtivörur daginn eftir meðferð.


CoolTech líkamsmótun

cooltech
My Image

CoolTech fitueyðing er áhrifarík og varanleg fitueyðingarmeðferð. Meðferðin virkar þannig að með nákvæmri frystingu á líkamssvæði sem hafa safnað á sig óæskilegri fitu deyja fitufrumurnar og eru síðan fjarlægðar af sogæðakerfi líkamans. Svona fitueyðing með frystingu er möguleg vegna þess að fitufrumur líkamans eru mun næmari fyrir kulda en húðfrumurnar. Húðin helst því heil og óskemmd við meðferðina.  CoolTech fitufrystingin er örugg og fer fram án skurðaðgerðar. Meðferðin er nánast sársaukalaus og mun mildari en fitusog. Ekki er þörf á að fólk þurfi að taka frí frá vinnu til að jafna sig eftir meðferðina og ekki er þörf  á deyfingu eða svæfingu. Engar nálar eru notaðar. Taka skal þó fram að í einstaka tilfellum getur fólk fundið fyrir verulegum óþægindum sem geta enst í allt að 6 vikur. Það er sjaldgæft og gengur til baka. 

Hver meðferð tekur um 70 mínútur. 

Fitufrystingarmeðferð með Cooltech hefur verið notuð á meira en 1 milljón einstaklinga og eru meira en 90% ánægðir með árangurinn. Margar ritrýndar rannsóknir hafa verið skrifaðar um meðferðina (sjá tengla á þær greinar hér fyrir neðan).

Fyrir hverja er CoolTech líkamsmótun?

CoolTech líkamsmótun  er fyrst og fremst hugsuð fyrir fólk sem óskar eftir minni háttar lagfæringu á vissum stöðum líkamans, en ekki sem meðferð við almennri offitu.  Meðferðin er sérstaklega áhrifarík gegn „erfiðum“ svæðum, þ.e.a.s. svæði líkamans með fitu sem vill ekki hverfa við megrun eða líkamsrækt. Við fitufrystinguna fækkar þeim fitufrumum sem frystar eru og árangurinn verður sýnilegur eftir einungis eina meðferð. 
Hægt er að meðhöndla kvið, síður, læri, mjaðmir, svæði kring um hné og rasskinnar. Allt að 25% minnkun á fitu á því svæði sem meðhöndlað er, getur sést eftir 1 meðferð.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir að einstaklingar léttist við þessa meðferð. Til að árangur haldist þarf fólk að passa að þyngjast ekki því annars gæti sú fita komið á meðhöndluð svæði eins og á önnur svæði líkamans. Eins geta hormónaáhrif haft áhrif á varanleika meðferðar. Mælt er með skynsamlegu mataræði fyrir eða eftir meðferðir. 

Hvernig virkar Cooltech líkamsmótunin?

Við CoolTech fitufrystingu deyja fitufrumur djúpt undir húð. Eins og fyrr segir er þetta vegna þess að fitufrumur eru mjög næmar fyrir kulda. Líkaminn þarf síðan til til að losa sig við fitufrumurnar og getur það tekið nokkrar vikur. Eftir um 12 vikur sést árangurinn að fullu en eftir um 4 vikur má sjá einhvern mun. 

Eftir um 6-8 vikur eftir fyrstu meðferðina er óhætt að meðhöndla sama svæði aftur. 

Flestir þurfa 2-3 meðferðir til að ná fullnægandi árangri og hjá sumum nægir jafnvel ein meðferð. Dreifing fitufrumna er mismunandi hjá fólki og skýrir það muninn á árangrinum. 
Um 10% fólks svarar ekki Cooltech meðferðinni og hjá öðrum getur svæðið orðið aðeins óreglulegt eftir meðferðina

Hvernig fer CoolTech meðferðin fram?

Til að sem bestur árangur náist er best að bóka fyrst viðtal hjá starfsfólki Húðlæknastöðvarinnar til að gera áætlun um meðferðina og eins til að ganga úr skugga um að fólk hafi raunhæfingar væntingar um árangur. Skoða þarf ástand húðarinnar. 
Í byrjun er svæðið sem meðhöndla á mælt og ljósmyndir af svæðinu teknar. 

Á húðina yfir svæðinu sem meðhöndla á er lögð gelmotta til að verja undirliggjandi húð.
Cooltech hausinn sogar til sín fituvefinn og kælir síðan fituna undir húðinni þannig að þær fitufrumur sem meðferð er beint að deyja. Þær eru síðan teknar upp af sogæðakerfi líkamans í fyllingu tímans. Kælingin er -3 til – 8 gráður. Þegar líður á meðferðina dofnar húðin og vægu óþægindin af soginu hverfa. Mismunandi endastykki eru notuð eftir því hvaða líkamshluti er meðhöndlaður.

My Image

Öryggiskerfi er í Cooltech tækinu sem virkar þannig að kælingin hættir sjálfkrafa ef hún verður of mikil. Þetta er gert að að húðin yfir fitusvæðinu skemmist ekki. 

Meðan á meðferð stendur getur viðkomandi slakað á lesið, hlustað á tónlist eða jafnvel unnið. Ekki er þörf á sérstökum tíma til að jafna sig eftir meðferð. Eftir hverja meðferð sem tekur húðin nokkuð rauð og vægt bólgin. Þá er svæðið nuddað af meðferðaraðila til brjóta niður fituvefinn og örva upptöku í sogæðakerfið. 

Í stöku tilfellum getur húðskyn dofnað jafnvel í nokkrar vikur eftir Cooltech meðferð. Væg eymsli geta orðið í húð eftir meðferðina og jafnvel vægt mar. 

CoolTech meðferðin getur valdið aukaverkunum sem eru það vægar að þær trufla ekki daglegar athafnir:
Það kemur alltaf roði á meðferðarsvæðið sem getur varað frá nokkrum mínútum upp í nokkra klukkutíma
Stundum getur mar komið á meðferðarsvæðið vegna sogsins
Flestir finna fyrir breyttu skyni, eins og dofa eða kitlandi tilfinningu, í svæðinu sem meðhöndlað er fyrst af stað. Það jafnar sig yfirleitt fjótt en í undantekningartilfellum getur það varað í allt að 8 vikur.
Sumir finna fyrir þreytutilfinningu með vægum hita í einn sólarhring
Flestir finna ekki fyrir neinum sársauka í byrjun meðferðarinnar, en sumir finna fyrir vægum sársauka fyrstu 10 mínúturnar
Flestir finna fyrir vægum sársauka í enda meðferðarinnar þegar að tækið er tekið af og húðin nudduð. Varir yfirleitt í u.þ.b. 10 mínútur en getur varið í 7 til 10 daga ef mikil bólga verður. Þá má taka parasetamól eftir þörfum, helst ekki bólgueyðandi eins og íbúprófen.

Það sem ber að varast:
Forðastu sólina og ljósameðferðir 5 dögum fyrir og eftir meðferð
Forðastu aðrar meðferðir eins og lasermeðferðir á sama meðferðarsvæði
Ekki er ráðlegt að framkvæma meðferðina ef mikið húðslit er á meðferðarsvæðinu, nýleg ör (yngri en 1 árs), kviðslit eða keloid ör 

Cooltech fitufrysting er ekki fyrir:
þungaðar konur eða þær með barn á brjósti
einstaklinga með hita, flensulík einkenni eða virka sýkingu
sjúklinga með kviðslit
sjúklinga með virka húðsjúkdómaa, æðahnúta eða æðabólgur á meðferðarsvæðinu 
sjúklinga með ofsakláða gegn kulda (cold urticaria) eða aukið næmi fyrir kulda
sjúklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma í húð
sjúklinga með Raynaud´s sjúkdóm, cryoglobulinemiu eða blóð storkugalla
sjúklinga með langvinna hjarta-, æða- eða nýrnasjúkdóma
sjúklinga sem eru nýkomnir úr skurðaðgerð á meðferðarsvæðinu. Verða að líða a.m.k. 6 mánuðir frá aðgerð.

Myndband sem útskýrir Cooltech:Bæklingur um Cooltech:


Vísindagrein um Cooltech meðferðina:


Verðskrá

Húðslípun:

Andlit - 14.000 kr.
Andlit 4 skipti - 44.800 kr. (20% afsláttur)
Andlit og háls - 18.000 kr.
Andlit og háls 4 skipti - 57.600 kr. (20% afsláttur)

Ávaxtasýrumeðferð:

Andlit - 14.900 kr.
Andlit 4 skipti - 47.680 kr. (20% afsláttur)
Andlit og háls - 19.900 kr.
Andlit og háls 4 skipti kr. - 63.680 kr. (20% afsláttur)

Dermapen:

Andlit - 25.000 kr.
Andlit 4 skipti - 80.000 kr. (20% afsláttur)
Andlit og háls - 30.000 kr.
Andlit og háls 4 skipti - 96.000 kr. (20% afsláttur)
Háls - 15.000 kr.
Háls 4 skipti - 48.000 kr. (20% afsláttur)
Slit á maga eða lærum (striae) - 30.000 kr.
Slit á maga eða lærum 4 skipti - 96.000 kr. (20% afsláttur)

 • Húðlæknastöðin

  Smáratorg 1,
  201 Kópavogur,
  Iceland

 • Opnunartími

  Alla virka daga
  8:00 - 16:00

  Skiptiborð er opið
  09:00 - 12:00
  13:00 - 15:30

 • Hafa samband

  Sími: 520 4444
  Fax: 520 4400
  Email: timabokun@hls.is
  Laser / Botox / Fylliefni
  Sími: 520 4407 & 520 4412
  Fax: 520 4400
  Email: laser@hls.is

 • Samfélagsmiðlar

© Húðlæknastöðin ehf. - Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans - Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd